föstudagurinn 30. ágúst 2013

Leikárið kynnt bráðum

Sigvaldi Kaldalóns frá fyrra leikári. Verður sú sýning áfram á fjölunum?
Sigvaldi Kaldalóns frá fyrra leikári. Verður sú sýning áfram á fjölunum?

Það haustar í leikhúsinu einsog um land allt. Haustið markar ávallt nýtt upphaf í leikhúsinu eru í raun okkar áramót. Við erum einmitt að undirbúa komandi leikár sem sannarlega verður sögulegt og spennandi. Ljóst er að tvö ný íslensk leikverk verða frumsýnd á nýju leikári. Að vanda er efnið sótt í hinn gjöfula vestfirska sagnaarf einsog öll fyrri verk okkar. Fjórir kómískir kunningjar verða áfram á fjölunum og er það sannarlega ánægjulegt þegar verkin njóta svo mikilla vinsælda. 

Það verður svo um miðjan september sem leikárið 2013 - 2014 verður kynnt. Fylgist því vel með.

þriðjudagurinn 20. ágúst 2013

Þrefaldur Gísli Súrsson

Það styttist í 260 sýningu á Gísla Súra spurning hvað verður haldið lengi áfram allavega eins lengi og við höfum gaman að þessu
Það styttist í 260 sýningu á Gísla Súra spurning hvað verður haldið lengi áfram allavega eins lengi og við höfum gaman að þessu

Vinsældir verðlaunaleikritsins Gísli Súrsson eru ekkert að minnka og fílum við það vel. Þrjár sýningar verða á þeim Súra í vikunni og verða þær allar á söguslóðum kappans í Haukadal í Dýrafirði. Á miðvikudag koma 150 erlendir háskólanemar í dalinn til að sjá sýninguna og ganga á slóðir sögunnar. Þar sem fjöldin er svona mikill þá verða sýningarnar tvær og að sjálfsögðu verða þær á ensku. Á föstudag kemur svo 40 manna íslenskur hópur í Haukadalinn til að horfa á Gísla Súrsson á Gíslastöðum. 

fimmtudagurinn 1. ágúst 2013

Gullkistan í Djúpinu frumsýnd um helgina

Borgarey er gengur undir gælunafninu Gullkistan í Djúpinu
Borgarey er gengur undir gælunafninu Gullkistan í Djúpinu

Um helgina verða Inndjúpsdagar haldnir þriðja árið í röð í Djúpinu. Nánar tiltekið í Heydal í Mjóafirði. Kómedíuleikhúsið hefur frá upphafi Inndjúpsdaga tekið þátt í hátíðinni. Sérstakur leikþáttur var saminn fyrir hátíðina á upphafsári hennar er fjallaði um Björn Jórsalafara. Var þeim leik afar vel tekið og leikurinn endurtekinn í fyrra. En í ár verður nýr leikur úr smiðju Kómedíuleikhússins frumsýndur er tengist hinu sögulega Inndjúpi. 

Leikurinn nefnist Gullkistan í djúpinu og verður frumsýndur á Inndjúpsdögum í Heydal á laugardag 3. ágúst kl.17.30. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson en leikstjóri er Marsibil G. Kristjánsdóttir. Gullkistan í Djúpinu fjallar um hina einstöku og sögulegu eyju Borgarey sem stendur við höfuðbólið Vatnsfjörð. Það er óhætt að segja að margt merkilegt hafi gerst á þessari eyju þó hún sé ekki nema eins kílómetra löng og hálfrar kílómetra breið. Enda skiptir stærðin nú sjaldan máli líkt og hinni betri helmingur mannkyns er ávallt að benda á. Fjölmargar persónur koma við sögu í þessum leik um Borgarey er jafnan er kölluð Gullkistan í Djúpinu. Meðal þeirra sem segja sögu Gullkistunnar má nefna ónefndan prakkaraprestson úr Vatnsfirði, danskur bókhaldari, mannlegur sauður, ónefndur húsmaður og loks sjálfur Sigvaldi Kaldalóns. Einsog sjá má á þessum fjölbreytta lista persóna má búast við miklu ævintýri á Inndjúpsdögum í Heydal á laugardag. 

Sjáumst þá. 

mánudagurinn 29. júlí 2013

Vinsælustu leikritin

Vinsælasta leikrit allra tíma Gísli Súrsson
Vinsælasta leikrit allra tíma Gísli Súrsson

Það má segja að nú sé eiginleg áramót leikhúsa. Allir eru að pakka sínu liðna leikári saman og um leið ljúka við að undirbúa komandi leikár. Á slíkum tímamótum er vinsælt að líta um öxl og kikka soldið á hvernig hafi gengið. Leikhúsrekstur er svosem ekkert öðruvísi en hvert annað fyrirtæki hvort heldur það er olíufélag, banki, fataverslun og eða bara prentsmiðja. Stundum gengur vel og stundum ekki eins vel. Sumar vörur seljast meðan aðrar fara minna. Þannig er þessu einnig varið í leikhúsinu. Sumar sýningar ganga meðan aðrar falla ekki í kramið. Maður veit jú aldrei fyrirfram í þessum bransa hvernig króinn eigi eftir að dafna eina sem maður getur gert er að halda áfram hvernig sem gengur. Eða bara einsog sagt: Þeir fiska sem róa. 

Meðan við pökkum og þökkum fyrir liðið leikár sem sannarlega var kómískt og svona áður en við kynnum nýtt leikár þá birtum við hér lista yfir vinsælustu leikrit allra tíma í vorum leikhúsbúðum. Kómedíuleikhúsið var stofnað árið 1997 og frá þeim tíma höfum við sett upp 32 sýningar. Er þá allt talið bæði leikrit í fullri lengd sem og leikþættir. Það þarf svosem ekki að koma á óvart hvert vermir hið Kómíska toppsæti. Leikritið um Gísla Súrsson hefur notið gífurlegra vinsælda auk þess sem verkið hefur hlotið nokkur verðlaun á erlendum leiklistarhátíðum. Dimmalimm er í öðru sæti á topp lista Kómedíuleikhússins yfir vinsælustu leiksýningar allra tíma. Þar á eftir kemur hápólitíski gamanleikurinn Heilsugæslan. Talan 31 er sérlega kómísk tala í okkar sýningarbókhaldi því alls hafa þrjár sýningar verið sýndar það oft. Hér er topp tíu listinn í heild sinni yfir vinsælustu leikrit allra tíma hjá Kómedíuleikhúsinu.

 

    Leikrit Sýningarfjöldi 

 

1. Gísli Súrsson 251

2. Dimmalimm 74

3. Heilsugæslan 36

4-6.  Bjarni á Fönix 31

4-6. Jólasveinar Grýlusynir 31

4-6. Pétur og Einar 31

7. Jón Sigurðsson - Strákur að vestan 24

8. Búkolla - Ævintýraheimur Muggs 21

9.  Bjalfansbarnið og bræður hans 20

10.  Náströnd: Skáldið á Þröm 19

miðvikudagurinn 24. júlí 2013

Búkolla og Sigvaldi á Reykhóladögum

Búkolla verður á Reykhóladögum
Búkolla verður á Reykhóladögum

Um helgina verða hinir árlegu Reykhóladagar haldnir. Kómedíuleikhúsið tekur þátt í hátíðinni og sýnir tvo verk úr smiðju sinni. Á laugardeginum 27. júlí verður ævintýraleikurinn Búkolla sýndur í Hvanngarðabrekku og hefst leikurinn kl.16.00. Daginn eftir verður Dagsstund með Sigvalda Kaldalóns þar sem fjallað verður um ár hans í Djúpinu. Sýnt verður í setustofunni á Barmahlíð og hefst sýningin kl.15.30. 

laugardagurinn 13. júlí 2013

Sigvaldi Kaldalóns á Dalbæ

Sigvaldi sýndur á þar næsta bæ við Kaldalón
Sigvaldi sýndur á þar næsta bæ við Kaldalón

Sunnudaginn 14. júlí verður haldin sérstök Kaldalónshátíð á Snæfjallaströnd nánartiltekið á Dalbæ. Þar verður hið vinsæla leikrit Sigvaldi Kaldalóns sýnt. Auk þess verður boðið uppá söngdagskrá með úrval laga eftir Kaldalóns og fjallað verður um ár tónskáldsins í Djúpinu. Hátíðin hefst kl.18 með sýningu á leikritinu Sigvaldi Kaldalóns. Miðaverð á Kaldalónshátíðina er aðeins 2.900.- kr og verður miðasala á staðnum. 

Það verður sannarlega gaman að sýna leikritið Sigvaldi Kaldalóns á Dalbæ einmitt á slóðum læknisins og tónskáldsins. 

föstudagurinn 5. júlí 2013

Sigvaldi Kaldalóns á Þjóðlagahátíð

Sigvaldi á Þjóðlagahátíð
Sigvaldi á Þjóðlagahátíð

Hin vinsæla sýning Sigvaldi Kaldalóns verður sýnd á hinni árlegu og mörgumtöluðu Þjóðlagahátíð á Siglufirði nú um helgina. Hátíðin hefur fyrir löngu stimplað sig vel inní menningarlíf landsins enda er hér á ferðinni vönduð hátíð sem bíður uppá fjölbreytta þjóðlagalist. Leikritið Sigvaldi Kaldalóns verður sýnt í kvöld föstudag kl.20 í Siglufjarðarkirkju. 

Eftir þessa skemmtilegu norðanferð með Sigvalda verður farið í heimahaga söguhetjunnar eða í Dalbæ á Snæfjallaströnd þar næsta bæ við Kaldalón og Ármúla. Sú sýning verður á sérstakri Kaldalóns hátíð þar í sveit sem fer fram sunnudaginn 14. júlí. 

þriðjudagurinn 2. júlí 2013

Skrímsli á leið í verslanir

Skrímslasögur fást í verslunum um land allt
Skrímslasögur fást í verslunum um land allt

Þá er tólfta hljóðbók okkar komin út og enn á ný leitum við í hinn magnaða þjóðsagnaarf okkar. Nú eru það skrímslin. Já, nú er komin út hljóðbókin Skrímslasögur sem inniheldur mangaðar sögur af skrímslum þjóðarinnar. Víst hafa skrímslin verið á meðal okkar allt frá örófi alda eða allavega strax frá landnámi þegar fyrst fréttist af einhverjum óvættum í sjó og vötnum á Íslandi. Alls eru sögurnar 31 á hljóðbókinni Skrímslasögur og eru þar m.a. sögur af hinum mögnuðu skrímslum Lagarfljótsorminum og Krosseyrarskrímslinu.

Skrímslasögur er hægt að panta á heimasíðu Kómedíuleikhússins komedia.is og það er frí heimsending hvert á land sem er. Einnig eru Skrímslasögur væntanlegar í Eymdundsson, Vestfirzku verzlunina sem og í verslanir um land allt. 

Skrímslasögur frábærar í ferðalagið. 

miðvikudagurinn 26. júní 2013

Búkolla á Bíldudals grænum

Listamaðurinn Muggur ólst uppá Bíldudal
Listamaðurinn Muggur ólst uppá Bíldudal

Núna um helgina verður stuð í Arnarfirði og þá sérílagi á Bíldudal því þar verður haldin bæjar-og menningarhátíðin Bíldudals grænar. Glöggir fatta hér líklega að nafngiftin er sótt í hinar sögufrægu Bíldudals grænar baunir sem voru lengi framleiddar þar ásamt handsteiktum kjötbollum og fleiru gúmmelaði. Á Bíldudals grænum verður allt vaðandi í menningu og í aðalhlutverki verða Arnfirðingar sjálfir. Kómedíuleikarinn er einn af þessum ofvirku Arnfirðingum og því kom ekki annað til greina en að skella sér með eins og eina leiksýningu á hátíðina. Við ætlum að koma okkur fyrir í garðinum í Birkihlíðinni, æskuheimili þess kómíska, og sýna ævintýraleikinn vinsæla Búkolla - Ævintýraheimur Muggs. Sýnt verður á laugardaginn, 29. júní kl.15, og aðgöngumiðinn kostar ekki nema einn þúsara. 

Það er vel við hæfi að sýna þessa sýningu sem er helguð minningu Muggs sem stundum er nefndur Bíldudalsprinsinn. Enda var hann sonur Bíldudalskóngsins Péturs J. Thorsteinssonar og þarna ólst prinsinn upp og upplifði ævintýri Bíldudals og Arnarfjarðar.  

mánudagurinn 24. júní 2013

Kaldalóns á Hlíf

Elfar Logi og Dagný Arnalds í hluttverkum sínum í Sigvaldi Kaldalóns
Elfar Logi og Dagný Arnalds í hluttverkum sínum í Sigvaldi Kaldalóns

Kómedíuleikhúsið býður íbúm á Hlíf uppá leiksýningu á þriðjudag. Það er hin vinsæli leikur Sigvaldi Kaldalóns sem verður á fjölunum. Sýningin hefst kl.15 og verður gaman að sýna á Hlíf enda móttökur þar ávallt frábærar. 

Leikurinn um Sigvalda Kaldalóns var frumfluttur síðla vetrar í Hörmum Ísafirði og hlaut strax góðar viðtökur áhorfenda. Síðan þá hafa verið nokkrar sýningar og á næstunni verður farið í tvær leikferðir. Fyrst ber að nefna sýningu á hinni frábæru Þjóðlagahátíð á Siglufirði. Sýnt verður föstudaginn 5. júlí í Siglufjarðarkirkju og hefst leikurinn kl.20. Skömmu síðar eða þann 14. júlí verður farið á söguslóðir verksins. Allaleið í Dalbæ á Snæfjallaströnd, þar næsta bæ eða svo frá Ármúla þar sem Sigvaldi átti heima. Leikurinn hefst kl.18 sunnudaginn 14. júlí og er miðaverð aðeins 1.900.- kr. Miðasala er þegar hafin í síma 8917025. 

Ævintýrið um Sigvalda Kaldalóns er greinilega bara rétt að byrja. 

Eldri færslur