miðvikudagurinn 23. október 2013

Kómedíuleikhúsið með ókeypis leiklistarnámskeið

Kómedíuleikhúsið verður með þrjá viðburði á Veturnóttum og þar ber hæst frumsýning á Fjalla-Eyvindi
Kómedíuleikhúsið verður með þrjá viðburði á Veturnóttum og þar ber hæst frumsýning á Fjalla-Eyvindi

Hin árlega hátíð Veturnætur hefst í Ísafjarðarbæ á morgun og stendur alveg fram yfir helgi. Kómedíuleikhúsið tekur þátt í hátíðinni með þremur viðburðum. Á föstudag kl.15 verður ókeypis leiklistarnámskeið fyrir börn í Ísafjarðarbæ. Námskeiðið er fyrir börn á aldrinum 6 - 10 ára og fer fram í aðstöðu leikhússins í Tónlistarskóla Ísafjarðar, gengið inn í portinu fyrir aftan Hamra. Farið verður í leiki, spuna og allskonar sprell.

Á laugardag verður mikið um að vera í herbúðum Kómedíuleikhússins. Dagurinn hefst með Vestfirskum húslestri kl.13.15 þar sem fjallað verður um fossa með því m.a. að flytja ljóð um þá. Um kveldið verður svo fyrsta frumsýning leikársins. Þá verður flutt nýtt íslenskt leikrit Fjalla-Eyvindur. Frumsýningin verður um margt sérstök því hún mun fara fram utandyra. Nánartiltekið í Garðinum við Húsið á Ísafirði. Fjörið hefst kl.20.30 þegar áhorfendum gefst geggjað tækifæri að búa sig undir útiveruna með gómsætri súpu að hætti Hússins. Sýningin verður síðan í Garðinum og að henni lokinni verður slegið upp dansiballi með kontrý sveitinni Crazy Horse. 

Það er sannarlega ástæða til að taka vel á móti vetrinum og hvað er þá betra en að gera það með list og menningu. 

sunnudagurinn 20. október 2013

Fjallabræður fá frítt á Fjalla-Eyvind

Ef að það er einhverntíman tilefni til að standa saman bræður þá er það núna.

Hinn frábæri og fjallmyndarlegi Fjallabræður hefur glatt landsmenn meira en margur annar með tónleikum um land allt. Nú er kominn tími til að þakka fyrir sig. 

Fjallabræður ykkur er hér með boðið á leikritið Fjalla-Eyvindur. Frumsýningin er núna á laugardag 26. október kl.20.30 í Garðinum við Húsið. Boðið verður uppá súpu fyrir leiksýningu og svo dansiball á Húsinu á eftir. Ef einhver ykkar kemst ekki á frumsýninguna þá er það allt í lagi því boð þetta gildir á allar sýningar á leikritinu Fjalla-Eyvindi hvar sem er á landinu.

Fjallabræður hlökkum til að sjá ykkur á Fjalla-Eyvindi. 

föstudagurinn 18. október 2013

Miðasala á Fjalla-Eyvind í blússandi gangi

Það er ekki útí hött að mæta í nútíma útilegumannaklæðnaði á frumsýninguna.
Það er ekki útí hött að mæta í nútíma útilegumannaklæðnaði á frumsýninguna.

Forsala aðgöngumiða á frumsýningu Kómedíuleikhússins á Fjalla-Eyvindi hófst á fimmtudag. Salan fer fram í Vestfirzku verzluninni á Ísafirði en einnig er hægt að panta miða í miðasölusíma Kómedíuleikhússins 891 7025. 

Frumsýningin á Fjalla-Eyvindi verður um margt öðruvísi en þó ekki. Því sýningin mun fara fram utandyra að hætti söguhetjunnar. Sýnt verður á útisviðinu í Garðinum við Húsið á Ísafirði. Fjörið hefst kl.20.30 en þá verður boðið uppá gómsæta súpu í Skúrnum. Þegar allir hafa fengið sér gott í sinn kropp og góðan yl þá hefst frumsýningin. Það er ekki vitlaust að vera íklæddur nútíma útilegumannaklæðnaði þetta kveld Eyvindar fjallanna. Einnig verður boðið uppá kakó og kaffi og jafnvel eitthvað útí það meðan á sýningu stendur. Svo engum ætti að vera kalt. Að sýningu lokinni verður svo dansiball en það verður haldið innandyra á Húsinu. 

miðvikudagurinn 16. október 2013

Forsala á Fjalla-Eyvind að hefjast

Forsalan að detta inn á Fjalla-Eyvind
Forsalan að detta inn á Fjalla-Eyvind

Á morgun, fimmtudag, hefst forsala á nýjasta leikrit Komedíuleikhússins Fjalla-Eyvindur. Forsalan fer fram í miðbæ Ísafjarðar, nánartiltekið í Vestfirzku verzluninni og hefst kl.12.12.

Frumsýningin verður laugardaginn 26. október kl.20.30 en þá fer einmitt fram hátíðin Veturnætur í Ísafjarðarbæ. Að hætti Fjalla-Eyvindar verður frumsýningin utandyra. Sýnt verður á útisviðinu í Garðinum við Húsið á Ísafirði. Til að fá hita í kroppinn þá hefst leikurinn með því að allir fá gómsæta súpu í Skúrnum að hætti Hússins. Í Garðinum verður síðan boðið uppá heitt súkkulaði og kaffi (kannski eitthvað útí það fyrir þá sem það kjósa) meðan á sýningu stendur. Að sýningu lokinni verður boðið uppá dansiball sem mun fara fram innandyra, á Húsinu.

Miðaverð fyrir allt þetta: Súpu, leiksýningu og dansiball, er aðeins 2.900.- kr. Nú er bara að skunda í Vestfirzku og ná sér í miða á Fjalla-Eyvind 26. október. 

laugardagurinn 5. október 2013

Fjalla-Eyvindur frumsýnt á Veturnóttum

Fjalla-Eyvindur væntanlegur. Mynd: Þórður Kristinn Sigurðsson.
Fjalla-Eyvindur væntanlegur. Mynd: Þórður Kristinn Sigurðsson.

Æfingar fyrir fyrstu frumsýningu þessa leikárs standa nú yfir með blússandi krafti. Útlagar hafa löngum verið inni hjá Kómedíleikhúsinu og nægir þar að nefna verðlaunasýninguna Gísla Súrsson um samnefndan útlaga. Annar og ekki síður þekktur íslenskur útlagi verður í aðalhlutverki í fyrstu frumsýningu leikársins. Nefnilega sjálfur konungur fjallanna enda jafnan nefndur Fjalla-Eyvindur. Sá kappi var heldur betur kappi því hann var í útlegð í ein 40 ár. Það er því af mörgu að taka í hinni merku sögu Eyvindar Jónssonar og má búast við spennandi en jafnframt svolítið óvæntri sýningu. 

Leikritið Fjalla-Eyvindur verður frumsýnt á hátíðinni Veturnætur á Ísafirði í lok þessa mánaðar. Frumsýningin verður að hætti umfjöllunarefnisins því hún mun fara fram utandyra. Hvar? Góð spurning við munum greina frá því fljótlega en þó má geta þess að sýnt verður í hjarta Ísafjarðar. Búið er að panta gott veður laugardagskveldið 26. október en þá mun Fjalla-Eyvindur stíga á ónefnt útisvið á Ísafirði. 

Höfundur leikritisins Fjalla-Eyvindur er Elfar Logi Hannessosn og mun hann einnig bregða sér í hlutverk hins þekkta útlaga. Guðmundur Hjaltason sér um tónlistina í leiknum og Marsibil G. Kristjánsdóttir sér um rest, búninga, leikmynd og leikstjórn. 

mánudagurinn 30. september 2013

Búkolla og Sigvaldi Kaldalóns á Kaffi Grundarfirði

Kómedíuleikhúsið fer reglulega í leikferðir um landið og þessa vikuna verðum við á Vesturlandi. Auk þess að sýna í skólum á svæðinu verðum við með opnar sýningar á Kaffi Grundarfirði. Sýnt verður fimmtudaginn 3. október og verða tvær sýningar á fjölunum. Leikurinn hefst kl.16.30 á Kaffi Grundarfirði þar sem sýnt verður ævintýralega leikritið Búkolla sem slegið hefur í gegn. Miðaverði er stillt í hóf, miðinn á aðeins 1.700.- kr. Um kvöldið verður svo boðið uppá Sigvalda Kaldalóns - Sigvaldastund og hefst sú sýning kl.20. Miðaverð er aðeins 1.900.- kr.

Miðasala á báðar sýningarnar fer fram á Kaffi Grundarfirði á sýngingardagi og rétt er að geta þess að posi verður á staðnum. 

þriðjudagurinn 17. september 2013

Leikferð í skóla á Vesturlandi

Búkolla og Gísli Súrsson fara á flakk
Búkolla og Gísli Súrsson fara á flakk

Vikuna 30. september til 5. október mun Kómedíuleikhúsið heimsækja skóla á Vesturlandi. Boðið verður uppá tvær leiksýningar svo allir aldurshópar fá eitthvað við sitt hæfi. Fyrir leikskóla og yngri bekki grunnskóla er boðið uppá ævintýraleikinn vinsæla Búkolla sem hefur sannarlega slegið í gegn um land allt. Fyrir eldri bekki grunnskóla er boðið uppá hvorki meira né minna en verðlaunasýninguna Gísli Súrsson. Þá sýningu þarf vart að kynna hefur verið á ferð og flugi síðan 2005 og þegar hafa 255 sýningar verið sýndar. 

Það er auðvelt að panta sýningu aðeins þarf að senda okkur tölvupóst á netfangið komedia@komedia.is Einnig er hægt að bjalla í okkur í Kómedíusímann 891 7025. 

sunnudagurinn 15. september 2013

Gísli Súrsson á Hlíf

Gísli Súrsson fer á Hlíf
Gísli Súrsson fer á Hlíf

Kómedíuleikhúsið fer um land allt með sýningar sínar og á suma áfangastaði förum við oft enda finnst okkur þar svo gaman. Einn af okkar vinsælu áfangastöðum er dvalarheimilið Hlíf á Ísafirði þar er sannarlega gott að koma. Kómedíuleikarinn hefur oft farið þangað og lesið úr bókum og einnig höfum við sýnt sýningar okkar þar við góðar undirtektir. Nú verður boðið uppá verðlaunaleikinn Gísla Súrsson og verður sýningin á mánudag kl.14. Gísla Súra þarf vart að kynna en til gamans má geta þess er þetta verður 255 sýning á leiknum. 

Síðustu tvær vikur hefur Kómedíuleikhúsið verið á ferð og flugi milli leik- og grunnskóla í Ísafjarðarbæ. Allir skólar voru heimsóttir og boðið uppá leikritið Ævintýrastund. Alls voru átta sýningar sýndar og óhætt að segja að stuðið hafi verið alveg ævintýralegt. Enda glæst framtíð sem nemur við skóla Ísafjarðarbæjar. Í lok sýningar var svo hverjum skóla gefin Þjóðleg hljóðbók með ævintýrum og þjóðsögum. Þannig geta krakkarnir haldið áfram að kynnast hinum magnaða ævintýra- og þjóðsagnaarfi Íslands. 

Sýningarnar í skólum Ísafjarðarbæjar eru tilkomnar vegna tvíhliðasamnings sem Kómedíuleikhúsið gerði við Ísafjarðarbæ. Fjölmörg verkefni eru í þessum fína samstarfssamningi m.a. sýningar í skólum bæjarins, Vestfirskir húslestrar í Bókasafninu á Ísafirði og leiklistarnámskeið á hátíðinni Veturnætur. 

fimmtudagurinn 5. september 2013

Ævintýrastund í skólum Ísafjarðarbæjar

Á morgun hefst ævintýraleg heimsókn Kómedíuleikhússins í skóla Ísafjarðarbæjar. Er það liður í samningi sem Kómedíuleikhúsið gerði við Ísafjarðarbæ sem fól í sér ýmsar skemmtanir í bænum s.s. skemmtun á 17. júní , vestfirska húslestra og leiklistarnámskeið á Veturnóttum. Skólaheimsóknin verður sannarlega ævintýraleg því boðið verður uppá Ævintýrastund í skólum bæjarins. Ævintýrin eru mögnuð og í þessari ævintýrastund verða það ævintýrin Klippt og skorið og Tröllabbræður sem verða í aðalhlutverki. 

Ævintýraheimsóknin hefst einsog áður sagði á morgun, föstudag, með sýningu á Leikskólanum Sólborg kl. 9.45. Eftir hádegi er svo röðin komin að nýjasta skólanum í bænum Eyrarsól og hefst sýning þar kl. 14.20. Ævintýrið heldur svo áfram í næstu viku þar sem aðrir skólar bæjarins verða heimsóttir og slegið upp í Ævintýrastund. 

Eldri færslur