miðvikudagurinn 19. ágúst 2015

Grettisstund fyrir austan á helginni

Samstarf Kómedíuleikhússins og Einars Kárasonar, skálds, með Grettis sögu heldur áfram á helginni. Eystra fer fram hin árlega hátíð Ormsteiti og meðal þess sem boðið er uppá á því menningarhlaðborði er Grettisstund með Einari Kára og Elfari Loga. Um tvær sýningar er að ræða sú fyrri í Sláturhúsinu Egilsstöðum á laugardag kl.17. Daginn eftir sunnudaginn 23. ágúst verður Grettisstund í Baðstofunni í Óbyggðasetrinu Egilsstöðum í Fljótsdal. 

Þeir félagar hafa verið með Grettisstund bæði í Fischersetri á Selfossi og á Gíslastöðum Haukadal. Formið er á þann veg að Einar Kárason hefur leik með einstöku erindi um hina mögnuðu Grettis sögu. Kómedíuleikarinn, Elfar Logi, tekur svo við og sýnir einleikinn Gretti. Vel hefur verið tekið í Grettisstundina og mjög líklegt að stundirnar verði mun fleiri á komandi leikári. 

mánudagurinn 17. ágúst 2015

Gísli Súrsson tvöfaldur í Haukadal

Verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson
Verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson

Ekkert lát er á sýningum á verðlaunastykkinu Gísli Súrsson. Þriðjudaginn 18. ágúst verða tvær sýningar á leiknum á söguslóðum á Gíslastöðum í Haukadal. Sýningarnar eru fyrir nemendur á íslenskunámskeiði Háskólaseturs Vestfjarða en verða þó báðar leiknar á ensku. Það var einmitt þannig sem enska útgáfa leiksins komst á koppinn þegar við fengum símtal frá forstöðumanni Háskólaseturs Peter Weiss vorið 2005. Síðan þá höfum við sýnt fjölda sýninga á ensku fyrir nemendur Háskólaseturs Vestfjarða. Það á að geta þess sem vel er gert og víst má hrósa Háskólasetri Vestfjarða sem hefur sannarlega gert frábæra hluti á Vestfjörðum. 

Fjölmargar sýningar eru fyrirhugaðar á Gísla Súra á leikárinu 2015 - 2016. Í september verður leikurinn sýndur ásamt öðrum Íslendingasagnaleik, Gretti, á Lamb inn í Öngulstaðahreppi. Ekki nóg með það heldur verður Kómedíufrúin einnig með myndlistarsýningu á sama stað þar sem hún sýnir rómaða myndröð sína byggða á flygum setningum úr Gísla sögu. Sýningarnar á Lamb inn í Öngulstaðahreppi verða föstudaginn 18. og laugardaginn 19. september komandi. Miðasala er löngu hafin. 

laugardagurinn 25. júlí 2015

Topp tíu listi Kómedíu

Gísli alltaf í topp standi
Gísli alltaf í topp standi

Það er sumar meira að segja sól þegar þessar línur eru ritaðar. Nú eru hin eiginilegu áramót leikhússins við byrjuðum í sumarfríi í gær sem stendur alveg til 18. ágúst. Líkt og siður er við áramót þá er gaman að kikka á það sem gert hefur verið ekki bara á leikárinu sem er að kveðja heldur og öllum hinum. Hvað hefur gengið vel hvað ekki eins vel. Án þess þó að dett í einhverja fortíðarþrá og allt betra en gamla daga frasa. Heldur miklu frekar ylja sér við góðar minningar og horfa fram á veginn. Hvað ber komandi leikári í skauti sér? 

Með öllum þessum hugsunum um fortíð og framtíð var tekin saman topp tíu listi yfir vinsælustu sýningar okkar. Að vanda er það mjólkurkýrin okkar Gísli Súrsson sem vermir toppsætið hefur verið sýndur 300 sinnum og margar sýningar framundan á komandi leikári. Gaman er að segja frá því að næstu tvær sýningar tengjast saman listamanninum nenfilega Guðmundi Thorsteinssyni sem flestir þekkja betur undir gælunafninu Muggur. Sá listamaður er og í miklu uppáhaldi hjá Kómedíuleikhúsinu og Kómedíuleikaranum. Þó það sé rétt á frumstigi þá má geta þess að Kómedíuleikarinn er einmitt að rita barnabók um Mugg þessi misserin. 

Hér er topp tíu listinn okkar, sjáumst hress á komandi leikári.

 

    Leikrit                                         Sýningarfjöldi

1. Gísli Súrsson                                 300

2. Dimmalimm                                   74

3. Búkolla - Ævintýraheimur Muggs       37

4. Heilsugæslan                                 36

5-7. Bjarni á Fönix                              31

5-7. Jólasveinar Grýlusynir                  31

5-7. Pétur og Einar                             31

8. Bjálfansbarnið og bræður hans         28

9. Fjalla-Eyvindur                               27

10. Jón Sigurðsson - Strákur að vestan  24

miðvikudagurinn 15. júlí 2015

300 sýning á Gísla Súrssyni

Vinsældir Gísla hafa alls ekki verið súrar
Vinsældir Gísla hafa alls ekki verið súrar

Ævintýrið um verðlaunaleikinn Gísla Súrsson hefur verið engu líkt. Í uphhafi leist engum vel á þá hugmynd að gera einleik uppúr hinni vinsælu Gísla sögu Súrssonar. En það er nú einmitt þá sem ævintýrin gerast og rétt er að koma verkinu á svið. Það gerðum við og frumsýndum einleikinn Gísli Súrsson 18. febrúar 2005 í Grunnskóla Þingeyrar. Um kveldið var síðan sýning í Félagsheimilinu Þingeyri fyrir íbúa. Síðan eru liðnar nokkur hundruð sýningar um land allt og einnig víða erlendis. Gísli Súrsson hefur sannarlega farið í víking í gegnum árin því sýningar hafa verið í Þýskalandi, Lúxemborg, Albaníu og meira að segja í sjálfum Súrnadal i Noregi þar sem söguhetjan sleit barnskónum. Leikurinn hefur tvívegis verið sýndur á erlendum leiklistarhátiðum og unnið til verðlauna á þeim báðum.

Á laugardaginn verður Gísli Súrsson sýndur í 300 sinn. Líkt og ævintýrið sjálft sem hefur farið sínar eigin leiðir líkt og kötturinn þá verður sýningarstaðurinn all sérstakur. Nefnilega sveitabærinn Kiðafell 3 i Kjós. Þar verður haldin mikil hátíð á helginni er nefnist Kátt í Kjós. Gisli Súrsson verður sýndur kl.16.00 á túninu við Kiðafell 3. 

Þó mörgum finnst kannski nóg komið og ástæða til að fara í súr þá er það alls ekki planið hjá okkur. Nú þegar eru fjölmargar sýningar fyrirhugaðar á Gísla Súrssyni á næstunni og á komandi leikári. Kannski kílum við á 100 sýningar í viðbót eða svo. Hver veit því í ævintýrum getur allt gerst. 

fimmtudagurinn 4. júní 2015

Grettisstund með Einari Kára og Elfari Loga

Sagnamaðurinn Einar Kárason
Sagnamaðurinn Einar Kárason

Sérstök Grettisstund verður haldin í paradísadalnum á Gíslastöðum í Haukadal Dýrafirði í lok júní. Þá munu þeir Einar Kárason, rithöfundur, og Elfar Logi Hannesson, leikari, leiða saman hesta sína og leika með eina þekktustu Íslendingasöguna Grettis sögu Ásmundarsonar. Grettisstundin verður sunnudaginn 28. júní kl.20.00.

 

Einar Kárason hefur leik og fjallar um Gretti á sinn magnaða hátt en Einar er mikll sögumaður sem unun er að hlýða á. Að Einars þætti loknum mun Elfar Logi Hannesson sýna einleikinn Grettir sem hefur sannarlega slegið í gegn og verið sýndur víða. Rétt er að geta þess að á milli þeirra félaga verður gert stutt hlé þar sem gestum gefst kostur á að bragða á hinum magnaða rabbabaragraut húsfreyjunnar. 

 

Miðasala á Grettisstund á Gíslastöðum í Haukadal Dýrafirði er þegar hafin. Miðasölusíminn er 891 7025, einnig er hægt að panta miða með því að senda tölvupóst á komedia@komedia.is 

Miðaverð er aðeins 3.500.- kr

föstudagurinn 15. maí 2015

Norður skal halda

Kómedíuleikhúsið skundar í næstu viku í stutta leikferð um Norðurland. Tvær leiksýningar verða sýndar í norðurferðinni. Fyrst skal telja verðlaunaleikinn Gísla Súrsson en þess ber að gera að alveg á næstunni verður 300 sýningin á leiknum sem er nú bara met. Líklega ekki Íslandsmet en það styttist í það því Gísli verður á fjölunum um land allt í sumar. Ævintýraleikurinn Búkolla verður með í norðurferðinni að þessu sinni. Þessi sýning hefur einnig notið mikilla vinsælda og hefur verið sýnd um 40 sinnum víða um landið. Hér á er ferðinni ævintýraleg sýning þar sem leikin eru helstu ævintýrin sem bílddælski listamaðurinn Muggur myndskreytti á sínum stutta en einstaka ferli. Má þar meðal annars nefna hans eigið ævintýri Dimmalimm sem er án efa eitt af þeim allra vinsælustu hér á landi.

þriðjudagurinn 21. apríl 2015

Kómedíuleikhúsið fær reseft

Grettir hefur slegið í gegn fyrir sönnan
Grettir hefur slegið í gegn fyrir sönnan

Kómedíuleikhúsið hefur í vetur sýnt einleikinn Gretti í Fischersetrinu á Selfossi. Ekki hefur þetta þó verið alveg einleikið því sagnamaðurinn Einar Kárason hefur verið í kompanýi við okkur og flutt tölu um Gretti á undan sýningunni. Þessar tvöföldu Grettis sýningar þóttust takst frábærlega og var aðsókn hin besta. Kómedíuleikhúsið og Einar Kárason hafa nú planlagt að vera með Grettisstund í sumar fyrir vestan. Nánar tiltekið á Gíslastöðum Haukadal í Dýrafirði. Á heimaslóðum annars útlaga nefnilega Gísla nokkurs Súrssonar. Grettis sýningarnar í Haukadal verða auglýstar þegar nær dregur sumri. 

Hin listræni doktor Lýður Árnason var á tvöföldum Gretti í Fischersetri á Selfossi um daginn. Að hætti lækna ritaði hann reseft um flutninginn:

,,Frábær samsuða sagnamannsins Einars Kárasonar og Elfars Loga um Gretti sterka. Einar rekur söguna og grefur upp áhugaverð sjónarhorn sem Elfar Logi tætir síðan í sig og matreiðir í áhorfendur á einkar fyndin hátt. Einleikjaformið er hér í essinu sínu."

þriðjudagurinn 14. apríl 2015

Gísli og Búkolla fara norður

Gísli Súrsson ein mest sýnda leiksýning allra tíma er enn á fjölunum
Gísli Súrsson ein mest sýnda leiksýning allra tíma er enn á fjölunum

Kómedíuleikhúsið hefur í gegnum árin farið reglulega í leikferðir um landið og heimsótt grunn- og leikskóla. Í lok apríl verður farið í leikferð um Norðurland. Boðið er upp tvær vandaðar og vinsælar sýningar. Verðlaunaleikinn Gísli Súrsson og ævintýraleikinn Búkolla. Vel gengur að bóka sýningar og eru áhugasamir hvattir til að setja sig í samband við okkur með því að senda tölvupóst á netfangið

 

komedia@komedia.is 

þriðjudagurinn 7. apríl 2015

Grettir og Einar Kára aftur á Selfossi

Fyrr í vetur var haldin sérstakt Grettiskveld í Fischersetrinu á Selfossi með miklum bravúr. Einar Kárason, rithöfundur, flutti erindi um Gretti og Kómedíuleikhúsið sýndi einleikinn sinn um kappann. Á næstu helgi á að endurtaka leikinn. Sýnt verður bæði laugardag 11. apríl og sunnudaginn 12. apríl í Fischersetrinu Selfossi. Húsið opnar 19.30 en leikur hefst kl.20. Miðaverð er aðeins 3.500.- kr og rennur allur ágóði til Fischerseturs. Miðsölusími er 894 1275. 

Meðfylgjandi eru tvær myndir sem teknar voru á síðsutu Grettisstund. 

miðvikudagurinn 18. mars 2015

Gísli Súrsson og Grettir á Skíðaviku

Kómedíuleikhúsið í samstarfi við heiðurshjónin í Arnardal býður uppá sannkallaða leikhúsveislu á föstudaginn langa í Skíðaviku. Sýndar verða tvær vinsælar og einstakar leiksýningar á sama kveldinu báðar byggðar á vinsælustu Íslendingasögunum. Nefnilega verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson og nýjasti smellurinn Grettir, byggður á Grettissögu. Sýnt verður á föstudaginn langa, 3. apríl, kl.20 en húsið opnar hálftíma fyrir sýningu. Barinn opinn og einstök stemning í paradísinni í Arnardal. En það tekur aðeins 7 mín að aka í paradísina frá Ísafirði. Miðaverð litlar 3.500.- kr. Forsala fer fram í Hamraborg á Ísafirði. Miðasölusími: 891 7025.

 

Þetta er í fyrstsa sinn sem útlagarnir Gísli og Grettir mætast á leiksviðinu. Gísli Súrsson hefur verið á fjölunum síðan 2005 og síðan eru liðnar 300 sýningar. Grettir hinsvegar var frumsýndur í upphafi árs en hefur þegar verið víðförull einsog kollegi sinn.  

 

Hin árlega Skíðavika fer fram í Ísafjarðarbæ á páskum. Hátíðin hefur stækkað með ári hverju og víst geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Ekki bara rokk og ról heldur og úrval leiksýninga og ekki má gleyma skíðunum.  

Fyrri síða
1
234567161718Næsta síða
Síða 1 af 18
Eldri færslur