mánudagurinn 13. júní 2016

Vestfirska leikárið gert upp

Meðan Leikfélag Hólmavíkur setti upp ball daðraði Kómedíuleikhúsið við Sjeikspír
Meðan Leikfélag Hólmavíkur setti upp ball daðraði Kómedíuleikhúsið við Sjeikspír
1 af 2

Lokkað og daðrað 

Við lok hverrar vertíðar er vert að kikka um öxl og skila inn aflatölum. Vissulega er leikhúsið sjóvmennska og nú í lok leikárs er komið að löndun leikhússins vestfirska.  Ekki síst vegna þess að leiklistin er list augnabliksins, er hér og nú, svo tekur eitthvað annað listaverk við. Minningin gleymist þó ekki en stundin verður ekki endurtekin. Þannig er leikhúsið í sinni tærustu mynd hér og nú með öllum þeim kostum og kannski göllum. Enda ekki að ósekju sem margir segja að töfrar og galdrar gjörist í leikhúsinu í hvert sinn sem leikið er.

Leikhúsið vestfirska stendur á gömlum og traustum grunni. Um leið og þorpin byrjuðu að myndast uppgötvuðu menn skjótt að lífið væri ekki bara saltfiskur. Til að punta uppá hverdaginn var mikilvægt að hafa sér eitthvað til dundurs. Þar varð listin fljótlega fyrir valinu og áður en langt um leið voru settar á svið heilu leiksýningarnar. Þar sem heimamenn voru í öllum hlutverkum bæði á sviðinu sem og baksviðis. Fljótlega spruttu upp sérstök leikfélög sem enn starfa svo gott sem í hverju þorpi Vestfjarða. Það er meira að segja rekið eitt atvinnuleikhús, þótt afar smátt sé, á hinum afskekta kjálka landsins. Vissulega er starfsemi félaganna misjafnlega öflug. Sumir setja upp leikrit á hverju ári meðan aðrir bregða á leik annað hvert ár eða láta jafnvel fleiri ár líða á milli uppsetninga.

Vestfirska leikárið var sannarlega fjölbreytt, freistandi og frumlegt. Leikurinn hófst með því að lokka okkur og seiða með sýningunni Eitthvað sem lokkar og seiðar hjá Óperu Vestfjarða. Leikárinu lauk svo með daðri Kómedíuleikhússins í Daðrað við Sjeikspír. Alls voru átta verk sett á svið á hinu vestfirska leikári. Því er vert að hefjast handa og skila inn aflaleikhústölum hins vestfirska leikárs 2015 – 2016. Við lifum jú á þvílíkum stuð tímum að stundum man maður bara ekki hverju maður er búinn að gleyma.

 

Frá Ísafirði til Hólmavíkur

Fyrsta uppfærsla hinnar nýstofnuðu Óperu Vestfjarða, Eitthvað sem lokkar og seiðir, var frumsýnd 17. september í Hömrum á Ísafirði. Þessi lauflétta óperetta fjallaði um fyrstu óperettudrottningu þjóðarinnar hinnar ísfirsku Sigrúnu Magnúsdóttur. Var það vel við hæfi að Ópera Vestfjarða hefji söng- og leik með því að minnast eins af mestu listamönnum Vestfjarða. En leikurinn var jafnframt frumflutningur sem gerir minninguna enn skærari. Aðsókn var góð og fullt á öllum þremur sýningunum. Október mánuður var tími tveggja frumsýninga á Vestfjörðum. Leikfélag Hólmavíkur í samstarfi við Sauðfjársetrið setti á svið Draugasögu eftir Jón Jónsson og var það einnig frumflutningur. Það er nú ekki lítið að fyrstu tveir mánuðir hins vestfirska leikárs skarti tveimur nýjum íslenskum verkum. Ætli þetta sé víðar á landinu? 

Eitt duglegast áhugaleikfélag Vestfjarða er án efa Litli leikklúbburinn á Ísafirði sem fagnaði hálfrar aldar afmæli sínu á liðnu ári. Margt var gert af því tilefni og í október bauð félagið uppá svonefnda Kvöldstund með LL. Þar var slegið á létta strengi og flutt lög úr leikverkum er félagið hafði sett á svið í gegnum áratugina fimm.

Eftir kraftmikla byrjun á leikári tóku önnur verkefni við hjá leikhúslistamönnum Vestfjarða. Jólin. Engin fór þó í jólaköttinn því eftir áramót voru sett á svið hvorki fleiri né færri en fimm verk þar á meðal enn eitt nýtt íslenskt stykki. Þetta fer nú að verða sérstakt rannsóknarefni listarannsakara þjóðarinnar öll þessi nýsköpun í íslenskri leikritun. Mar‘ spyr bara einsog söngvaskáldið: Er það hafið eða fjöllin?

 

Framtíðin og Sjeikspír

Það var vel við hæfi að framtíðin tæki senuna á nýju ári vestursins. Eitt flottasta og án efa ferskasta leikfélag Vestfjarða er LMÍ, Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði. Mikið væri nú gaman ef einhver tæki að sér að gera sögu þess félags skil áður en alltof langt um líður. Ár eftir ár setur félagið upp hvert stórvirkið á fætur öðru. Verkefnavalið er ávallt sérlega metnaðarfullt og stundum óvænt. Félagið stóð undir öllum væntingum og meira til með sýningu á Litlu hryllingsbúðinni í leikstjórn Ingridar Jónsdóttur. Sýnt var fyrir smekkfullu Edinborgarhúsi 27. febrúar og í kjölfarið fylgdu margar, margar sýningar. Leikhundurinn og ritari þessa pistils klökknar í hvert sinn sem félagið stígur á stokk. Fyllist stolti og trú á framtíðina.

Einsog var getið hér í upphafi þá frumsýndi hið duglega Leikfélag Hólmavíkur nýtt íslenskt verk í upphafi hins vestfirska leikárs. Þau létu ekki þar við sitja heldur frumsýndu hið vinsæla barnaleikrit Ballið á Bessastöðum 18. mars. Sýnt var í félagsheimili staðarins en einnig var farið í leikferð í Búðardal. Hinn vestfirski Bragi Valdimar Skúlason samdi tónlistina í verkinu en höfundur Bessastaðaballsins er Gerður Kristný. Leikstjórn annaðist Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir.

Grípum nú til klisju og segjum: Falla nú öll vötn til Dýrafjarðar. Leikdeild Höfrungs á Þingeyri hefur síðustu ár vakið mikla athylgi fyrir bráðfjörugar leiksýningar fyrir alla fjölskylduna. Á hverju ári er sagt, jæja þetta verður nú ekki toppað. Þó toppuðu þau sjálfa sig enn eitt árið þegar þau frumsýndu Kardemommubæinn 19. mars í félagsheimilinu. Leikurinn sló öll fyrri met leikdeildarinnar og gleðin var sannarlega við völd í þessum vinsæla bæ Thorbjörns Egner sem eldist betur en nokkur rauðleitur vökvi. Mikill hugur er í leikdeildinni sem hefur þegar ákveðið næsta verkefni en ritari fékk engan vegin að fá það upplýst til að geta ,,skúbbað“ hér að hætti blaðamanna. Svo vér verðum bara að doka og getum bara strax farið að hlakka til næsta leikárs í miðstöð leiklistar á Vestfjörðum. Einsog gárungarnir eru farnir að nefna þorpið.

Apríl færði okkur einnig tvær frumsýningar fyrir vestan. Ekki nóg með það heldur voru þær báðar frumsýndar sama daginn. Litli leikklúbburinn hóf hinn frábæra dag 23. apríl með því að bjóða öllum í leikhús á Rauðhettu. Já, ókeypis og það var ekki bara frítt á frumsýninguna heldur og allar 7 sýningarnar. Sannarlega rausnarlega boðið hjá félaginu og ástæða til að ekki bara þakka fyrir heldur og hrópa ferfallt húrra fyrir LL. Um kveldið  þennan sama leikhúsdaga í vestrinu, 23. apríl, frumsýndi Kómedíuleikhúsið í félagsheimilinu í Bolungarvík nýtt íslenskt leikverk, já enn eitt þetta endar í heimsmeti ég get svarið það. Þessi nýji vestíslenski leikur heitir Daðrað við Sjeikspír. Einsog nafnið gefur til kynna er hér til umfjöllunnar líklega vinsælasta leikskáld allra tíma William Shakespeare. Það var ærið tilefni til því þennan sama daga voru fjórar aldir síðan skáldið hélt á önnur svið. Má vel nefna það hér að Kómedíuleikhúsið var eitt atvinnuleikhúsa landsins sem heiðraði skáldið mikla hér á landi þennan dag. Farið var í leikferð um Vestfirði með leikinn við hinar ágætustu viðtökur.

 

Ef við mætum þá verður allt ok

Ef miðað er við íbúafjölda Vestfjarða má teljast bara dúndur gott að þar hafi verið sett á svið átta verk á einu og sama leikárinu. Hið vestfirska leikhús kemur bara vel undan vetri og nú tekur við hið frábæra vestfirska sumar. Leikhúsfólk okkar safnar kröftum fyrir komandi leikár 2016 – 2017. Eigi er ólíklegt að margir láti hugann reika um komandi leikhúsævintýri enda fátt betra að láta sig dreyma innanum um öll þessi fjöll og hafið, maður minn sæll og kátur.

Sumarið verður þó síður en svo leikhús laust á Vestfjörðum. Kómedíuleikhúsið tekur sér til að mynda ekkert sumarfrí enda nægur tími til þess með lækkandi sól, þó undarlega hljómi. Kómedían ætlar í sumar að bjóða uppá vikulegar sýningar á hinum kraftmikla einleik Gretti. Sýnt verður á ensku alla miðvikudaga í sumar í Edinborgarhúsinu. Í júlí mun leikhúsið síðan frumsýna nýtt íslenskt leikverk um Gísla á Uppsölum. Sýnt verður á söguslóðum í Selárdal í Arnarfirði eftir það verður farið í leikferð um landið. Ekki má svo gleyma hinni einstöku Act alone leiklistarhátíð sem verður haldin þrettánda árið í röð dagana 11. – 13. ágúst í sjávar- og einleikjaþorpinu Suðureyri.

Vestfirska leikhúsið er í góðum málum og verður það svo lengi sem við mætum í leikhúsið. Hafið hinar bestu þakkir fyrir komuna í hið vestfirska leikhús kæru áhorfendur án ykkar mundum við ekki bara hjara heldur hverfa á einhver allt önnur svið.

 

Elfar Logi Hannesson, þjónn leikhússins

Greinin birtist fyrst í BB

Það er ávallt mikið stuð í Súðavík
Það er ávallt mikið stuð í Súðavík

Kómedíuleikhúsið hefur átt sérlega gott samstarf við sveitarfélög á Vestfjörðum. Súðavíkurhreppur hefur síðustu ár gert verkefnasamning við leikhúsið og í maí var sá samningur endurnýjaður. Verkefnin sem hinn endurnýjaði samningur hljóðar um er leiksýning fyrir leik-og grunnskólann, ein uppákoma á hinum árlegu Bláberjadögum hreppsins, önnur uppákoma fyrir starfsmannadag og loks uppákoma á Miðaldahátíð í Heydal í Mjóafirði. 

Það er Kómedíuleikhúsinu mikils virði að geta átt svo gjöfult og gott samstarf við sveitarfélög Vestfjarða en leikhúsið hefur einnig verið með veglegan verkefnasamning við Ísafjarðarbæ mörg síðustu ár. Samstarf þetta hefur tryggt að mörgu leiti rekstur og ef ekki bara tilgang leikhússins. Fyrir nokkrum árum var leikhúsið einnig með verkefnasamning við Vesturbyggð og mikið sem við værum til í að endurnýjan þann samning líka. Einnig væri gaman að geta boðið öllum sveitarfélögum Vestfjarða uppí dans og stuðla þannig enn frekar að eflingu hins vestfirska atvinnuleikhús sem í ár fagnar 19 ára tilveru sinni. Það telst nú nokk gott í hinum hála og oft svala leikhúsbransa. 

Saga theatre every wednesday this summer in Isafjordur
Saga theatre every wednesday this summer in Isafjordur

The Comedytheatre in the Westfjords of Iceland will perform in English the powerful play Grettir every Wednesday this summer in Isafjordur. Shows will be in Edinborg Cultural Centre Isafjordur and starts at 20.00 every Wednesday. Tickets avalible at West Tours in Edinborg Isafjordur and also in the theatre on performance night. Ticket price is only 2.900. – ISK or 20 EUR.

Grettir is a theatreplay based on one of the most famous Icelandic sagas. The story of the famous Icelandic outlaw and trouble maker, Grettir Asmundarson, wich comes finaly on the stage as a strong and powerful solo play. Grettir, nicknamed the strong, was rebellious in his childhood, bell both in words and deed but fair of face. Great warrior on the field and so strong that he carried a big bull on his shoulders. He fell both bear and berserks and even a ghost. He was finally outlawed. Author and actor is Elfar Logi Hannesson.

 

Shows in june: 1, 8, 15, 22, 29

Shows in july: 6, 13, 20, 27

Every show starts at 20.00

sunnudagurinn 15. maí 2016

Grettir fer til Spánar

Grettir siglir enn og nú til Spánar
Grettir siglir enn og nú til Spánar

Það hefur verið góður gangur á leiksýningunni Gretti allt frá því að leikurinn var frumsýndur fyrir rúmu ári síðan. Síðan eru liðnar á þriðja tug sýninga víða um land við hinar bestu viðtökur. Síðasta haust var leikurinn þýddur yfir á ensku og í kjölfarið var farið í sérlega vel lukkaða leikferð til Kanada. Aftur er komið að utanför með Gretti og að þessu sinni verður leikherjað á Spán. Leikferðin er unnin og skipulögð af miklum Kómedíuvini, Jóni Sigurði Eyjólfssyni, sem er búsettur á Malaga á Spáni. Hefur hann staðið í ströngu við að bóka sýningar á Gretti og víst er að það verður nóg að gera. Sýnt verður í nokkrum grunnskólum og í einum framhaldsskóla á stór Malaga svæðinu. Einnig verður opin sýning í Almedinilla leikhúsinu í Cordóa héraði föstudaginn 27. maí. 

Sölumaður okkar í Spánverjalandi áður nefndur Jón Sigurður Eyjólfsson er mikill áhugamaður um Íslendingasögur og auk þess hinn ritfærasti maður. Lætur okkur reglulega taka bakföll að hætti Ómars Ragnarssonar þegar við lesum hans Bakþanka í Fréttablaðinu. Jón mun flytja erindi um Gretti og Íslendingasögurnar fyrir hverja sýningu okkar í þessari Spánarför. Hann gerir gott betur en það því einnig mun hann vera með sérstakt Íslendingasagnanámskeið á bókasafninu í Almedinilla. Kómedíuleikhúsið hefur fundið það á sýningum sýnum á Gísla Súrssyni og nú Gretti útí heimi að áhugi á Íslendingasögunum er gífurlega mikill. Það er því alveg geggjað að geta farið með þessa kappa út fyrir landsteinana og segja þeirra sögu með töfrum leikhússins. 

Segja má að þessi leikför til Spánar sé gott upphaf á leikvertíð Grettis á ensku. Leikurinn verður nefnilega sýndur alla miðvikudag í allt sumar í Edinborgarhúsinu Ísafirði. Fyrsta sýning verður miðvikudaginn 1. júní og er miðasala þegar hafin hjá Vesturferðum Ísafirði. 

miðvikudagurinn 11. maí 2016

Fjalla-Eyvindur fer í bankann á Selfossi

Fjalla-Eyvindur mætir á gamla bankann á Selfossi á helginni
Fjalla-Eyvindur mætir á gamla bankann á Selfossi á helginni

Einleikurinn Fjalla-Eyvindurverður sýndur á lofti Gamla Bankans, Austurvegi 21,Selfossi, laugardaginn 14. maí nk. kl. 20:00. Sýningin er samin og leikin af leikaranum Elfari LogaHannessyni en hann hefur samið og leikið í fjölda leikverka. Má þar nefna verðlaunaleikinn Gísla Súrsson og Gretti. Á undan sýningunni mun Guðmundur G. Þórarinsson segja frá sinni sýn á lífshlaup Fjalla-Eyvindar.

Miðaverð er 2500 kr. (2000 kr. fyrir hópa 10+) og þeir sem vilja tryggja sér miða geta gert það með því að hringja í síma 894 1275. Húsið verður opnað kl. 19:30.

sunnudagurinn 8. maí 2016

Daðri lokið

Sjö sýningar voru á Daðrað við Sjeikspír á Vestfjörðum
Sjö sýningar voru á Daðrað við Sjeikspír á Vestfjörðum

Þann 23. apríl frumsýndi Kómedíuleikhúsið leikinn Daðrað við Sjeikspír í Félagsheimilinu Bolungarvík. Einsog nafnið gefur til kynna er hér um Sjeikspír tileinkunnar stykki að ræða en í ár og nánar tiltekið þann 23. apríl voru 400 ára síðan skáldið hélt á önnur svið. Kómedíuleikhúsið eitt atvinnuleikhúsa landsins minntist dagsins hér á landi með frumsýningu á Daðrað við Sjeikspír. Að vanda hefur verkið vestfirska tengingu einsog öll önnur verk Kómedíuleikhúsins ekki er þó búið að sanna vestfirska tengingu á William Shakespeare þó ekki sé ólíklegt að hann eigi hér ættir að rekja, meina hver á það ekki. Heldur er það svo að vestfirska skáldið og sérann Matthías Jochumsson þýddi fjögur verka skáldsins. Það eru einmitt þau verk sem eru í aðalhlutverkinu í Daðrað við Sjeikspír auk þess sem fjallað er um verk og æfi skáldsins. 

Óhætt er að segja að Daðrinu hafi verið vel tekið en haldið var í 14 daga leikferð þar sem sýndar voru 7 sýningar á 6 stöðum. Vissulega var oft mjög góðmennt í sölum í leikferð okkar en það er nú bara partur af leikhúsinu. Það sagði heldur enginn að þetta yrði auðvelt einsog leikhúsmaðurinn danski sagði. Sýningarstaðirnir voru Bolungarvík, Patreksfjörður, Bíldudalur, Hólmavík, Suðureyri og Íssafjörður. Á síðast nefnda staðnum voru tvær sýningar. Kómedíuleikhúsið er vestfirskt leikhús sem vinnur með eigin sagnaarf, sögu og menningu og leitast við að sýna sem oftast og víða í sínu héraði. Á Vestfjörðum. 

Kómedíuleikhúsið þakkar Vestfirðingum komuna á Daðrað við Sjeikspír. Nú er leikhúsvetrinum formlega lokið bar þar margt kómískt til tíðinda að vanda. Tekur nú sumarleikhústíðin hjá Kómedíuleikhúsinu við með leikferð til Spánar með Gretti og vikulegar sýningar á fornkappanum í Edinborgarhúsinu Ísafirði. Að ógleymdri verðlaunasýningunni Gísli Súrsson sem verður sýndur á ensku í Haukadal í allt sumar. Lífið er Kómedía. 

mánudagurinn 2. maí 2016

Sjeikspír á Ísafirði og Suðureyri

Enn verður daðrað og nú á Ísafirði og Suðureyri
Enn verður daðrað og nú á Ísafirði og Suðureyri

Kómedíuleikhúsið heldur áfram með sýningar á nýjasta króanum Daðrað við Sjeikspír. Liðna helgi voru þrjár sýningar á þremur stöðum á Vestfjörðum við þessar fínu viðtökur. Nú er röðin komin að Ísafirði og Suðureyri. Daðrað við Sjeikspír verður sýnt í Edinborgarhúsinu Ísafirði á miðvikudag 4. maí kl.20. Kveldið eftir verður skundað í einleikjaþorpið Suðureyri hvar sýnt verður á kaffihúsi Fisherman og hefst sú sýning einnig kl.20. Miðaverð á sýninguna er 3.500.-, miðasölusími er 891 7025 en einnig er hægt að kaupa miða á sýningardegi á viðkomandi stað. 

Daðrað við Sjeikspír er leiksýning að hætti kaffileikhúsa. Þannig að gestir sitja við borð og margir hafa kosið að hafa eitthvað til að styrkja sér á meðan á sýningu stendur. Ku það auka mjög á skemmtanina. Daðrað við Sjeikspír er sett á svið af Kómedíluleikhúsinu í tilefni þess að í ár eru 400 ár frá því leikskáldið William Shakespeare hélt á önnur svið. Sýningin er blanda af sagnaþáttum um ævi skáldsins og inná milli eru flutt brot úr fjórum af hans allra bestu verkum. Um er að ræða leikina Rómeó og Júlía, Hamlet, Ótelló og hinum blóðidrifna Makbeð. Leikirnir eiga það eitt sameiginlegt að vestfirska skáldið og sérann Matthías Jochumsson snara þeim yfir á vort ylhýra.

Leikarar eru þau Elfar Logi Hannesson og Anna Sigríður Ólafsdóttir. Búninga gerði Marsibil G. Kristjánsdóttir og Víkingur Kristjánsson leikstýrir. 

Daðrað við Sjeikspír er 39 verkefni Kómedíuleikhússins. 

mánudagurinn 25. apríl 2016

Sjeikspír fagnað og leikferð framundan

Sjeikspír fer á flakk um Vestfirði á helginni
Sjeikspír fer á flakk um Vestfirði á helginni

Á helginni frumsýndi Kómedíuleikhúsið nýtt verk um ævi og verk skáldjöfursins William Shakespare. Á laugardag voru 400 ár liðin frá því skáldið hélt á önnur svið og því var vel við hæfi að minnast hans með veglegum hætti. Leikritið heitir Daðrað við Sjeikspír og er sett saman af Elfari Loga Hannessyni, hinum kómíska. Í leiknum er fjallað um ævi skáldsins og inná milli eru flutt brot úr 4 a hans vinsælustu verkum. Þau eiga það eitt sameiginlegt að vestfirska skáldið Matthías Jochumsson þýddi þau öll. Allir listamenn sýningarinnar eru ekki bara Vestfirðingar líka heldur og búsettir hér vestra, við verðum jú að styrkja og efla okkar eigið hagkerfi. Leikarar eru þau Anna Sigríður Ólafsdóttir og Elfar Logi Hannesson. Búninga gerði Marsibil G. Kristjánsdóttir og leikjstjórn er í höndum Víkings Kristjánssonar.

Frumsýningin á Daðrað við Sjeikspír var í Félagsheimilinu í Bolungarvík, sem gárungarnir kalla Hörpu Vestfjarða, og það var smekkfullur salur. Daðrað við Sjeikspír er sýning að hætti kaffileikhúsa og sitja því gestir við borð og margir höfðu eitthvað svalandi við hönd. Mæltist þetta vel fyrir. Rétt er að geta þess að Kómedíuleikhúsið var eina leikhús landsins sem minntist skáldnestorsins William Shakepeare sérstaklega í leikhúsinu. Enda var nú ekki annað hægt maðurinn var jú snillingur. 

Kómedíuleikhúsið ætlar að fara í leikferð um Vestfirði á komandi helgi. Fyrsti áfangastaður er Patreksfjörður nánar tiltekið hið glæsilega Fosshótel þar í bæ. Sýnt verður á föstudag 29. apríl og hefst leikurinn kl.20. Daginn eftir verður skudað yfir á Bíldudal þar sem sýnt verður í hinu magnaða Skrímslaseti. 1. maí verður síðan haldin hátíðlegur á Hólmavík þar sem Daðrað við Sjeikspír verður sýnt á Café Riis. Eftir sem áður verður sýningin að hætti kaffileikhúsa og því ætti engin að þurfa að fara þyrstur heim hvorki andlega né líkamlega. Allar sýningarnar hefjast kl.20. Miðasala er í síma 891 7025 en einnig er hægt að kaupa miða á hvurjum sýningarstað fyrir sig. Miðaverð er aðeins 3.500.- kr. 

 

Kómedíuleikhúsið færir yður Sjeikspír sem er ávallt ferskur á og ætíð erindi eigi síst í dag. 

mánudagurinn 18. apríl 2016

Sjeikspír dagur vestra á laugardag

Kómedíuleikhúsið minnist Sjeikspírs með viðeigandi hætti
Kómedíuleikhúsið minnist Sjeikspírs með viðeigandi hætti

Á laugardag 23. apríl eru liðin 400 ár frá andláti merkasta leikskálds allra tíma William Shakespeare. Kómedíuleikhúsið minnist skáldsins á dánardeginum fjórum öldum síðar með frumsýningu á leikverkinu Daðrað við Sjeikspír. Sýnt verður í Hörpu Vestfjarða, í Félagsheimilinu Bolungarvík. Um er að ræða sýningu að hætti kaffileikhúsa og sitja því gestir við borð og geta jafnvel sötrað á einhverju svalandi meðan á sýningu stendur. Miðaverð er aðeins 3.900.- kr og er einn drykkur innifalinn í miðaverði. Miðasala er þegar hafin í síma 891 7025. Sýningin hefst kl.20 á laugardag 23. apríl.

Daðrað við Sjeikspír er leikur þar sem fjallað er um ævi og verk skáldjöfursins Sjeikspírs. Flutt verða brot úr fjórum af hans þekktustu verkum Hamlet, Rómeó og Júlía, Makbeð og Ótelló. Verkin eiga það eitt sameiginlegt að vestfirska skáldið Matthías Jochumsson þýddi þau öll á vort ylhýra. Leikarar eru þau Anna Sigríður Ólafsdóttir og Elfar Logi Hannesson, búninga gerir Marsibil G. Kristjánsdóttir og Víkingur Kristjánsson leikstýrir. 

Rétt er að geta þess að farið verður í leikferð með Daðrað við Sjeikspír um Vestfirði. Sýnt verður á Patreksfirði föstudaginn 29. apríl, Bíldudal 30. apríl og loks á Hólmavík 1. maí. 

Daðrað við Sjeikspír er 39. verkefni Kómedíuleikhússins. 

mánudagurinn 21. mars 2016

Daðrað við Sjeikspír

Leikurinn verður frumsýndur í Hörpu Vestfjarða 23. apríl
Leikurinn verður frumsýndur í Hörpu Vestfjarða 23. apríl

Í ár eru liðin 400 ár frá því leikskáldið William Shakespeare sagði skilið við veru sína á hótel jörð. Hann var ekkert sérlega langlífur frekar en flestir þeir er dvöldu á hótelinu á þessum tíma, en hann lést 54 ára gamall, en þá hafði hann skrifað 37 leikrit og 154 sonnettur. Þó eflaust megi finna fleiri leikskáld sem skrifað hafa í slíku magni er óhætt að segja að enginn hafi haft nándarnærri viðlíka áhrif á leikhúsheiminn og Shakespeare. 400 árum frá dauða hans er enn verið að sýna verk hans um allan heim og eru bæði bein og óbein áhrif hans á leikhúsheiminn ótvíræð. Shakespeare ritðai ofurfagran og ljóðrænan texta og skrifaði hann bæði gamanleiki og tragedíur, ásamt því sem sér í lagi fyrri verk hans voru að miklu leiti af sagnfræðilegum toga. Það er augljóst á verkum hans að hið fallvalta og fjölbreytta mannlega eðli vakti áhuga leikskáldsins þar sem finna má djúpan texta sem endurspeglar mennskuna, sem virðist haldast nokkuð óbreytt þó allt annað í veröldinni kunni að breytast.

 

Íslensk atvinnu- og áhugaleikfélög hafa sett á fjalirnar verk hans í gegnum dagana og sýndi til að mynda leikfélag Menntaskólans á Ísafirði fyrir sjö árum Draum á Jónsmessunótt, en ekki hefur þó mikið farið fyrir uppfærslum á verkum hans í okkar ágæta fjórðungi - í það minnsta ekki í seinni tíð. Kómedíuleikhúsið hyggst nú bæta fyrir þessa fjarveru Shakespeare á vestfirskum fjölum og fagna tímamótunum með kappanum. Einsog venjan er á þeimm bænum er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, heldur dregið saman úrval úr verkum og stiklað á sögu, ævi hans og starfa. Til að halda áfram yfirlýstri stefnu leikhússins, að vinna með vestfirskan efnivið, verður unnið með þýðingar vestfirska þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar, sem á sínum tíma þýddi fjögur af stærri verkum Shakespeare: Ótelló, Rómeó og Júlíu, Makbeð og Hamlet.

Elfar Logi Hannesson, Kómedíuleikhúsið sjálft, hefur fengið til liðs við sig 5ryþma dansarann og gjörningalistakonuna Önnu Sigríði Ólafsdóttur og eru þau komin í startholurnar og segjast hvergi banginn yfir að takast á við þetta krefjandi verkefni. Hvað verður svo matreitt úr efniviðnum á eftir að koma í ljós, en æfingar á verkinu eru við það að hefjast undir leikstjórn leikarans Víkings Kristjánssonar, sem síðast leikstýrði Gretti góðu heilli og gengi er enn er í sýningu. 

Daðrað við Sjeikspír verður frumsýnt þann 23. apríl í Félagsheimili Bolungarvíkur og í framhaldinu verða sýningar víðar um Vestfirði. 

Eldri færslur