laugardagurinn 7. febrúar 2015

Grettir fer til Kanada

Grettir vill skoða heiminn
Grettir vill skoða heiminn

Viðtökur á nýjasta leikriti okkar Grettir hafa verið alveg ljómandi góðar. Leikurinn var frumsýndur fyrir aðeins tæpum mánuði og var sá dagur sannarlega kómískur. Frumsýnt var á söguslóðum Grettis eða í Vatnsfirði í Djúpi en þar dvaldi hann um hríð eftir að húsfreyja bjargaði honum undan snörunni. Sýnt var í minnsta óperuhúsi heims sem er einmitt í hinu sögufræga Vatnsfirði. Síðan þá hafa verið þrjár sýningar í grunnskólum. Óhætt er að segja að æskan hafi vel tekið í sögu fornkappans.

Nú ber heldur betur til tíðinda því Kómedíuleikhúsinu hefur verið boðið til Kanada með Gretti. Sýnt verður á Íslendingaslóðum á hátíð sem þar fer fram í október. Það er einmitt verið að þýða verkið yfir á ensku og verður sú útgáfa sýnd í Kanada í haust.

Næstu sýningar á Gretti verða hinsvegar í Fischersetrinu á Selfossi 21. og 22. febrúar. Einar Kárason stórskáld mun flytja erindi um Gretti á undan sýninguni bæði kveldin.