fimmtudagurinn 12. júní 2014

Gísli Súrsson á Gíslastöðum í kveld

Gísli Súrsson á fjölunum í allt sumar og svo ekki meir
Gísli Súrsson á fjölunum í allt sumar og svo ekki meir

Verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson verður sýndur á Gíslastöðum í Haukdal í kveld kl.20. Miðaverð er aðeins 2.500.- kr og það er posi á staðnum.

Það er sérlega gaman að sýna Gísla Súrsson á söguslóðum í Haukadal einmitt þar sem sá Súri tók land. Fjölmargar sýningar verða á leikritinu bæði í Haukadal, Reykjavík, Eyjafirði og víðar í sumar. Alls er um að ræða yfir 20 sýningar þetta sumarið og telst það líklega svolítið gott. En nú er líka að verða komið gott. Því þetta bráðum 300 sýnda verðlaunaleikrit verður brátt pakkað niður. Á ekki að hætta leik þá hæst hann stendur? Það er því ástæða til að hvetja þá sem enn eiga eftir að sjá Gísla Súrsson að bregða sér á sýningar okkar í sumar. Síðustu sýningar á Gísla Súrssyni verða miðvikudaginn 20. ágúst en þá verða sýndar tvær sýningar og það er uppselt á þær báðar. 

Leikritið Gísli Súrsson hefur verið stór partur af starfsemi Kómedíuleikhússins í ein 10 ár en nú munu aðrar hetjur taka við strax á komandi leikári 2014 - 2015. Sannarlega kómískt haust framundan.