miðvikudagurinn 25. september 2019

Fjöllin frumsýnd

Með fjöll á herðum sér er 45 verkefni Kómedíuleikhússins
Með fjöll á herðum sér er 45 verkefni Kómedíuleikhússins

Það er hátíð á helginni. Ljóðahátíð, nánartiltekið hin árlega Haustglæður á Siglufirði. Kómedíuleikhúsið hefur nokkrum sinnum komið fram á þeirri glæstu ljóðahátíð og í ár stendur mikið til. Á laugardag frumsýnir Kómedíuleikhúsið og Ljóðasetur Íslands ljóðaleikinn, Með fjöll á herðum sér. Hér er á ferðinni leikur gerður í tilefni af aldarafmæli ljóðskáldsins Stefáns Harðar Grímssonar. Flutt verða úrval ljóða hans í tali og tónum. Þetta er sannkallaður bræðraleikur því í honum koma fram þeir Elfar Logi og Þórarinn Hannessynir. Sá fyrrnefndi stýrir einmitt Kómedíuleikhúsinu og hinn síðarnefndi Ljóðasetri Íslands. Leikarinn Elfar Logi flytur úrval ljóða Stefáns Harðar og tónskáldið Þórarinn flytur eigin lög við ljóð skáldsins. 

Það verður gefin út vegleg leikskrá fyrir ljóðaleik þennan, Með fjöll á herðum sér. Má segja að ritið sé nærri einsog bók því í henni er allt handrit leiksins sem og nóturnar við lögin í sýningunni. Þannig að nú geta áhorfendur ekki aðeins lesið verkið aftur við heimkomu úr leikhúsinu heldur og spilað þau, aftur og aftur. Einnig er í leikskránni pistill um skáldið eftir stórskáldið Þórarinn Eldjárn. Listakonan Heiður Embla á heiðurinn af listaverkinu á forsíðu þessarar veglegu leikskrár. 

Með fjöll á herðum sér verður frumsýnt í Gránu á Siglufirði laugardaginn 28. september kl.20.00. Þaðan liggur svo leiðin í borgina. Hvar sýnt verður í Hannesarholti fimmtudaginn 3. október kl.20.00. Fleiri sýningar eru áformaðar á ljóðaleiknum í framhaldinu víða um landið.