sunnudagurinn 1. janúar 2012

Annáll Kómedíuleikhússins 2011

,,Nú árið er liðið í aldana skaut og aldrei það kemur til baka" það er nebblega það þá er best að pára hér niður helstu Kómedíufréttir ársins 2011. Árið var vissulega mjög kómískt og annasamt hjá litla atvinnuleikhúsinu fyrir vestan. Þrjú ný íslensk leikverk voru frumsýnd en óhætt er að segja að Kómedíuleikhúsið sé með duglegustu leikhúsum landsins við að frumflytja ný íslensk leikverk. Auk þess voru kómískir kunningjar með Gísla Súrsson fremstan í flokki, áfram á fjölunum. Act alone leiklistarhátíðin var haldin áttunda árið í röð og tvær nýjar Þjóðlegar hljóðbækur voru gefnar út. Kómedíuleikhúsið er meðal elstu starfandi sjálfstærða leikhúsa á Íslandi í dag en verulega hefur fækkað leikhúsum og hópum landsins síðustu ár. En gaman er að geta þess að ný hafið árið, 2012, er einmitt stókómísktafmælisár ár því í maí verður Kómedíuleikhúsið 15 ára. Kómedíuleikhúsið hefur stórkómíska drauma og hefur alla tíð haft þó allir draumar hafi ekki ræst enda væri lítið varið í það. Afmælisárið verður örugglega sérlega kómískt en vandi er um slíkt að spá einsog segir í kvæðinu rifjum það frekar upp í lok árs. Víkjum heldur á nýliðnu Kómedíuári 2011.

 

Fyrsta frumsýning ársins var á tvíleiknum Vestfirskur skáldskapur á 57 mín og Vestfirsk tónlist á 27 mín 4. febrúar í Arnardal. Frumsýningardagurinn bar einmitt uppá afmælisdegi Kómedíustjórans, Elfars Loga Hannessonar, sem fagnaði árunum 40 með þessari sýningu og var það vel við hæfi. Kómedíusonurinn Ársæll Níelsson lék ásamt Elfari og með þeim á senunni var einnig Guðmundur Hjaltason, tónlistarmaður. Einsog nafn verksins gefur til kynna er hér verið að fjalla um hinn stórmerka vestfirska skáldskap. Byrjað var á Íslendingasögunum og svo fetað sig áfram í gegnum vestfirsku skáldskaparsöguna allt til nútímans. Allt var þetta gert á 57 mínútum og geri aðrir betur. Ekki nóg með það heldur var einnig fjallað um vestfirska tónlist og það á aðeins 27 mínútum, það er greinilega allt hægt. Leikgerðina gerður þeir félagar en höfundur tónlistarinnar í verkinu sá Guðmundur um. Leikmynd og búninga gerði Marsibil G. Kristjánsdóttir. Leikurinn var sýndur við fantafínar viðtökur í Arnardal og loks í Reykjavík.

Næsta verkefni Kómedíuleikhússins var ekki síður djarft en Kómedían hefur ósjaldan tekið verk sem fáum dettur í hug að sé hægt að setja í leikbúning. Verkefnið var kannski sérlega djarft að þessu sinni en samt alltof freistandi til að sleppa því. Frægasti sonur Vestfjarða Jón Sigurðsson fagnaði tveggja alda afmæli og að sjálfsögðu var slegið upp veislu. Afmælisnefnd Jóns Sigurðssonar koma að máli við Kómedíuna þess efnis að búa til leikverk um sjálfstæðishetjuna. Að sjálfsögðu sögðum við já og hófumst þegar handa. Elfar Logi Hannesson brá sér í hlutverk sveitunga síns Jóns Sigurðssonar og var einnig höfundur handrits en leikurinn fékk einfalda nafnið Jón Sigurðsson strákur að vestan. Marsibil G. Kristjánsdóttir gerði búninga og leikmynd. Ársæll Níelsson leikstýrði en þetta var jafnframt fyrsta leikstjórnaverkefni hins unga og efnilega leikhúslistamanns. Jón Sigurðsson strákur að vestan var frumsýndur á afmælisdegi söguhetjunnar þann 17. júní á æskuslóðum hetjunnar á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Margir bjuggust við því að fá hér að heyra allar frægðarsögurnar af Jóni fjárkláðamálið, Vér mótmælum allir fundinn og allt það en allt kom fyrir ekki. Leikurinn fjallar nefnilega um æsku og mótunarár Jóns á Hrafnseyri sem voru sannarlega söguleg. Áhorfendur urðu samt ekki fyrir vonbrigðum enda er æskusaga ,,forsetans" fáum kunn. Leikurinn var sýndur í kapellunni á Hrafnseyri út sumarið. Í kjölfarið kom svo Haustleikferð Kómedíuleikhússins þar sem Jón Sigurðsson strákur að vestan var sýndur ásamt leiknum

Bjarni á Fönix en leikirnir tengjast ættar-og sögulegum böndum. Haustleikferðin stóð yfir í 16 daga þar sem sýndar voru 16 sýningar á jafnmörgum stöðum bæði á Vesturlandi og Vestfjörðum. Leikferðin heppnaðist hið besta og líklegt að Haustleikferð Kómedíuleikhússins verði að árlegum viðburði. Ekki var þó ævintýrinu lokið því leikhúsinu var boðið að sýna báða leikina í Kaupmannahöfn í Danmörku á vegum Íslendingafélagsins. Loks voru sýningar í höfuðborginni og á Selfossi.

Þriðja frumsýning ársins var svo í lok nóvember. Þar var á ferð sýning um vestfirsku jólasveinana sem sagt er frá í gömlu góðu þjóðsögunum en sveinar þessir hafa ekki sést meðal manna í áratugi. Leikurinn heitir Bjálfansbarnið og bræður hans. Sýnt var í Listakaupstað á Ísafirði þar sem Kómedíuleikhúsið hefur aðstöðu og var þetta jafnframt fyrsta frumsýningin í Listakaupstað. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson, Þórarinn Hannesson samdi jólasveinavísur  sem fluttar eru í leiknum, Marsbil G. Kristjánsdóttir skapaði alla umgjörð leiksins þar á meðal jólasveinana sem voru allir túlkaðir með grímum og öllu ævintýrinu leikstýrði Ársæll Níelsson. Viðtökur voru framar öllum vonum og sýningar urðu alls 10 í Listakupstað. Á nýju ári er stefnt að leikferð um landið með Bjálfansbarnið og bræður hans.

Kómedíuleikhúsið hefur haslað sér völl á hljóðbókamarkaðnum svo eftir hefur verið tekið. Útgáfan nefnist Þjóðlegar hljóðbækur og bættust tvær nýjar við á árinu. Um vorið kom út Þjóðlega hljóðbókin Bakkabræður og Kímnisögur, í flutningi Ársæls Níelssonar og Elfars Loga Hannessonar. Um haustið voru það Draugasögur, í flutningi Elfars Loga, og var það jafnframt áttunda Þjóðlega hljóðbókin. Allar fást þær á heimasíðu Kómedíuleikhússins www.komedia.is og í verslunum um land allt.

Kómískir kunningjar voru einnig á fjölunum á árinu. Áður var minnst á sögulega einleikinn Bjarni á Fönix sem var sýndur víða um landið. Tófustykkið Gaggað í grjótinu var einnig sýnt á árinu í Melrakkasetrinu í Súðavík. Sýningin hefur gegnið í tvö leikár en aðsóknartölur voru kannski ekki þær allra hæstu á liðnu ári en þannig er það nú bara í leikhúsinu. Síðast en ekki síst var mjólkurkýr Kómedíuleikhússins á ferð og flugi sem aldrei fyrr. Hér er að sjálfsögðu átt við verðlaunaleikinn Gísli Súrsson sem gengur og gengur og gengur. Enda er hér einstök sýning á ferðinni sem eldist jafnvel betur en besta rauðvín.

Loks rann upp ágúst og það þýðir bara eitt hjá Kómedíuleikhúsinu. Act alone. Þessi einstaka leiklistarhátíð sem er helguð einleikjum og er meðal fárra slíkra í Evrópu var haldin áttunda árið í röð. Að vanda sá Kómedíuleikhúsið um listræna stjórn hátíðarinnar einsog það hefur gert allt frá upphafi. Hátíðin fór fram dagana 12. - 14. ágúst á Ísafirði og Hrafnseyri í Arnarfirði. Að vanda var boðið uppá rjómann af íslenska einleikjaárinu en alls voru sýndar níu sýningar og þar af gestasýning frá Noregi. Act alone lukkaðist í alla staði frábærlega og er án efa ein flottasta listahátíð landsbyggðarinnar í dag.

Einsog lesa má hefur Kómedíuárið verið fjölbreytt og viðamikið. Við erum bara nokkuð ánægð með okkar verk og þökkum það frábæru starfsfólki sem hefur staðið með okkur og unnið einstakt verk. Að ógleymdum öllum velunnurum, styrktaraðilum og síðast en ekki síst áhorfendum um land allt. Án ykkar allra væri Kómedían ekki jafn söguleg og hún er. Við munum áfram leitast við að gera okkar allra best í öllum okkar verkum og vonumst til að þið hafið áfram trú á okkur.

Það er við hæfi að ljúka þessu 2011 spjalli með því að kikka dulítið á 2012 og hvað sé framundan hjá Kómedíunni á nýbyrjuðu afmælisári.

 

Kómedían árið 2012

Skáldið á Þröm - Nýtt íslenskt leikverk frumsýnt á Suðureyri í mars

Listamaðurinn með barnshjartað - Nýtt íslenskt leikverk frumsýnt í Selárdal í júní

Act alone haldin níunda árið í röð dagana 10. - 12. ágúst Ísafirði og Suðureyri

Þrjár nýjar Þjóðlegar hljóðbækur gefnar út