Álfa- og jólasögur í næstu verslun
Álfa- og jólasögur í næstu verslun

Tólfta Þjóðlega hljóðbókin er komin í verslanir um land allt. Að þessu sinni eru í aðalhlutverki Álfa- og jólasögur úr þjóðsagnasafni þjóðarinnar. Vissulega hafa álfar og hvað þá jólasveinar verið á vappi á Íslandi mun lengur en elstu menn muna. Hér er úrval bestu sagna úr báðum þessum þjóðsagnaflokkum safnað saman á einni hljóðbók. Sögurnar á Álfa- og jólasögur hljóðbókinni eru alls 35. Hljóðbókin er þegar komin í verslanir um land allt en útsölustaðir okkar eru fjölmargir nægir að nefna Mál og menning, Hamona Þingeyri, Vestfirzka verzlunin á Ísó og verslanir Eymundsson um land allt. 

Útgáfuröð Kómedíuleikhússins sem við nefnum Þjóðlegu hljóðbækurnar hafa notið mikilla vinsælda. Einsog áður sagði er Álfa-og jólasögur tólfta Þjóðlega hljóðbókin. Sú fyrsta kom út árið 2007 og nefnist Þjóðsögur úr Vesturbyggð. Þjóðlegu hljóðbækurnar bera nafn með rentu því hér er um að ræða vandaða útgáfu á okkar þjóðlega fróðleik gömlu góðu þjóðsögunum. Meðal annarra Þjóðlegra hljóðbóka sem hafa komið út má nefna: Þjóðsögur frá Hornströndum og Jökulfjörðum, Draugasögur, Bakkabræður og kímnisögur, Skrímslasögur og Galdrasögur.