þriðjudagurinn 21. ágúst 2012

Vinsælasta leiksýning Vestfjarða 237. sýning

Verðlaunasýningin Gísli Súrsson verður sýnd á söguslóðum miðvikudaginn 22. ágúst. Leikurinn verður sýndur á ensku fyrir 100 háskólanema sem dvelja nú hér vestra. Sýnt verður á Gíslastöðum í Haukadal sem stendur við enda tjarnarinnar þar sem ísknattleikurinn frægi var háður í Gísla sögu. Vinsældir leikritisins eru hreint ótrúlegar en ekkert vestfirskt leikrit hefur verið sýnt jafn oft en sýningin á miðvikudag er númer 237. Einleikurinn um Gísla Súrsson hefur verið sýndur um land allt og einnig víða erlendis í Albaníu, Lúxembúrg og Þýskalandi. Leikurinn hefur tvívegis fengið verðlaun á erlendum leiklistarhátíðum. Gísli Súrsson er hinsvegar ekkert á leiðinni í súr því í vetur verður skólum landsins boðið að fá sýninguna til sín. Einnig geta hópar ávallt pantað sýninguna sem hentar vel fyrir mannamót af öllum gerðum og aldurinn er jú bara afstæður því sýninguna fíla allir aldurshópar.