Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar og Elfar Logi Hannesson leikhússtjóri munda pennana á Patró
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar og Elfar Logi Hannesson leikhússtjóri munda pennana á Patró

Það var sannarlega kómískur dagur á laugardag, 11. maí, á Patreksfirði og mikið um að vera. Þá var undirritaður verkefnasamningur milli Kómedíuleikhússins og Vesturbyggðar. Samningurinn felst í því að á árinu mun Vestubyggð versla af Kómedíuleikhúsinu þrjú verkefni til handa íbúum Vesturbyggðar. Verkefnin eru ein leiksýning fyrir leikskólabörn Vesturbyggðar, ein sýning fyrir grunnskólanema Vesturbyggðar og loks ein menningaruppákoma fyrir eldri/heldri borgara Vesturbyggðar. Þetta er sannarlega ánægjulegt og sérlega finnst okkur skemmtilegt að fá að koma svona oft í þessa byggð sem sannarlega er í miklum vexti og almennt bjart yfir byggðinni sem og íbúum Vesturbyggðar.

Þetta er þriðji verkefnasamningurinn sem Kómedíuleikhúsið gerir við sveitarfélög á Vestfjörðum. Um daginn var gerður samningur við Súðavík en það var Ísafjarðarbær sem reið á vaðið og hefur sá samingur verið í gangi í nokkur ár. Loks má geta þess að Kómedíuleikhúsið er að ræða við fleiri sveitarfélög um listrænan verkefnasamning, ekki bara á Vestfjörðum heldur og víðar um landið. Svo nú krossum við bara fingur og vonumst til að geta stungið pennan niður víðar á næstu misserum.