Það er ávallt mikið stuð í Súðavík
Það er ávallt mikið stuð í Súðavík

Kómedíuleikhúsið hefur átt sérlega gott samstarf við sveitarfélög á Vestfjörðum. Súðavíkurhreppur hefur síðustu ár gert verkefnasamning við leikhúsið og í maí var sá samningur endurnýjaður. Verkefnin sem hinn endurnýjaði samningur hljóðar um er leiksýning fyrir leik-og grunnskólann, ein uppákoma á hinum árlegu Bláberjadögum hreppsins, önnur uppákoma fyrir starfsmannadag og loks uppákoma á Miðaldahátíð í Heydal í Mjóafirði. 

Það er Kómedíuleikhúsinu mikils virði að geta átt svo gjöfult og gott samstarf við sveitarfélög Vestfjarða en leikhúsið hefur einnig verið með veglegan verkefnasamning við Ísafjarðarbæ mörg síðustu ár. Samstarf þetta hefur tryggt að mörgu leiti rekstur og ef ekki bara tilgang leikhússins. Fyrir nokkrum árum var leikhúsið einnig með verkefnasamning við Vesturbyggð og mikið sem við værum til í að endurnýjan þann samning líka. Einnig væri gaman að geta boðið öllum sveitarfélögum Vestfjarða uppí dans og stuðla þannig enn frekar að eflingu hins vestfirska atvinnuleikhús sem í ár fagnar 19 ára tilveru sinni. Það telst nú nokk gott í hinum hála og oft svala leikhúsbransa.