mánudagurinn 2. nóvember 2020

Kómedíuleikhúsið á óvssutímum

Bakkabræður tveir bíða bara það kemur að sýningu einn daginn
Bakkabræður tveir bíða bara það kemur að sýningu einn daginn

Veiruskömmin hefur haft verulega áhrif á starfsemi okkar í Kómedíuleikhúsinu einsog hjá lang flestum fyrirtækjum þessa lands. Fjölmargar sýningar hafa verið afbókaðar og einsog staðan er núna er leiksýningahald bannað. Við rétt náðum að frumsýna nýjasta verk okkar Beðið eftir Beckett sem var styrkt af Leiklistarráði. Sýningar urðu þó ekki eins margar og stefnt var að enda urðum við að ljúka sýningum vegna Kóvítans. Núna í nóvember ætluðum við að frumsýna nýtt barnaleikrit, Bakkabræður. Ljóst er að það er ekki hægt sökum, say nó more. Nú, svo var stefnt á frumsýningu í lok janúar 2021 en nú teljum við að það sé einnig óraunhæft. Sökum... En við vonumst til þess að geta frumsýnt Bakkabræður í vor, helst á páskum 2021. Lofum þó engu. 

Við erum þó síður en svo verkefnalaus og höfum notað þessa einstöku tíma til að sinna viðhaldsverkum. Í leikhúsinu okkar í Haukadal er verið að taka salernisaðstöðuna í gegn bæði mála og svo á skipta um gólfefni. Einnig er verið að mála Gísla Súrsson leikmyndina en það er líklega í 4 sinn sem það er gert. Það starf fer fram í Leiklistarmiðstöð okkar á Þingeyri og þar er margt annað í gangi. Leikari leikhússins vinnur nú að ritsmíðum sem aldrei fyrr einum þremur bókverkum sem allar tengjast vestfirskri listasögu. Kómedíuleikhúsið mun gefa út þær bækur þegar þar að kemur. Vinna við Bakkabræður heldur áfram bæði hvað varðar brúður, leikmynd og hljóðheim sýningarinnar. 

Á nýju ári leggjum við svo í nýtt ævintýri. Tvö af leikritum okkar verða tekin upp sem útvarpsleikrit og verða síðan aðgengileg fyrir notendur hins vinsæla Storytel. Upptökur á leikjunum fer fram í leikhúsinu okkar í Haukadal. Ef vel verður tekið í þessa nýjung okkar er stefnt að því að taka upp fleiri leikverk og miðla á streymi Storytel. 

Víst stöndum við á margvíslegum tímamótum og næsta víst að það getur allt gerst. Við viljum leita allra leiða til að halda úti starfsemi eina atvinnuleikhús Vestfjarða því ef hlé væri gert á starfseminni er mjög ólíklegt að hún hæfist aftur sérlega ef hléið mundi dragast á langinn einsog allt lítur út núna. 

Við viljum því huxa með opinn hausinn og erum vel tilbúin að fást við ný verk á listasviðinu og tryggja okkur þannig starfið sem starfsemina til framtíðar. Hver veit nema við förum bara að vinna enn meira efni fyrir hljóð og mynd.