Nýtt íslenskt leikverk Náströnd - Skáldið á Þröm verður frumsýnt í kvöld kl.20 í Félagsheimilinu á Suðureyri. Uppselt er í kvöld en laus sæti á aðra sýningu annað kvöld kl.20. Verkið sem er einleikur fjallar um alþýðuskáldið Magnús Hj. Magnússon sem var fyrirmyndin af Ólafi Kárasyni í Heimsljósi Kiljans. Mikið er lagt í uppfærsluna sem er sérstök afmælissýning Kómedíuleikhússins sem fangar 15 ára afmæli í ár. Kómedían er meðal duglegustu leikhúsa landsins og er með elstu sjálfstætt starfandi leikhópa á landinu í dag. Athygli vekur að allur texti leikverksins er eftir Magnús sjálfan og er að mestu sóttur í dagbækur skáldsins sem eru mjög miklar af vöxtum gott ef kallinn eigi ekki Íslandsmet í dagbókarskrifum. Leikgerðina unnu þeir Ársæll Níelsson og Elfar Logi Hannesson sem er jafnframt leikstjóri en Ársæll bregður sér í hlutverk skáldsins. Höfundur tónlistar er Jóhann Friðgeir Jóhannsson en einnig er í sýningunni lag eftir son Súðavíkur, Mugison, slagarinn Ljósvíkingur. Ljósahönnður er Jóhann Daníel Daníelsson.

Sýningar á Náströnd - Skáldið á Þröm eru:

Fös. 23. mars kl.20 Uppselt

Lau. 24. mars kl.20 Laus sæti

Fös. 30. mars kl.20 Laus sæti

Lau. 31. mars kl.20 Laus sæti

Páskadag 8. apríl kl.21 Laus sæti

Miðasala á allar sýningar er þegar hafin í síma 891 7025. Miðaverð er 2.500.- kr en skólanemar og eldriborgarar fá 1.000.- kr afslátt af miðaverði.