mánudagurinn 21. mars 2016
Daðrað við Sjeikspír
Í ár eru liðin 400 ár frá því leikskáldið William Shakespeare sagði skilið við veru sína á hótel jörð. Hann var ekkert sérlega langlífur frekar en flestir þeir er dvöldu á hótelinu á þessum tíma, en hann lést 54 ára gamall, en þá hafði hann skrifað 37 leikrit og 154 sonnettur. Þó eflaust megi finna fleiri leikskáld sem skrifað hafa í slíku magni er óhætt að segja að enginn hafi haft nándarnærri viðlíka áhrif á leikhúsheiminn og Shakespeare. 400 árum frá dauða hans er enn verið að sýna verk hans um allan heim og eru bæði bein og óbein áhrif hans á leikhúsheiminn ótvíræð. Shakespeare ritðai ofurfagran og ljóðrænan texta og skrifaði hann bæði gamanleiki og tragedíur, ásamt því sem sér í lagi fyrri verk hans voru að miklu leiti af sagnfræðilegum toga. Það er augljóst á verkum hans að hið fallvalta og fjölbreytta mannlega eðli vakti áhuga leikskáldsins þar sem finna má djúpan texta sem endurspeglar mennskuna, sem virðist haldast nokkuð óbreytt þó allt annað í veröldinni kunni að breytast.
Íslensk atvinnu- og áhugaleikfélög hafa sett á fjalirnar verk hans í gegnum dagana og sýndi til að mynda leikfélag Menntaskólans á Ísafirði fyrir sjö árum Draum á Jónsmessunótt, en ekki hefur þó mikið farið fyrir uppfærslum á verkum hans í okkar ágæta fjórðungi - í það minnsta ekki í seinni tíð. Kómedíuleikhúsið hyggst nú bæta fyrir þessa fjarveru Shakespeare á vestfirskum fjölum og fagna tímamótunum með kappanum. Einsog venjan er á þeimm bænum er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, heldur dregið saman úrval úr verkum og stiklað á sögu, ævi hans og starfa. Til að halda áfram yfirlýstri stefnu leikhússins, að vinna með vestfirskan efnivið, verður unnið með þýðingar vestfirska þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar, sem á sínum tíma þýddi fjögur af stærri verkum Shakespeare: Ótelló, Rómeó og Júlíu, Makbeð og Hamlet.
Elfar Logi Hannesson, Kómedíuleikhúsið sjálft, hefur fengið til liðs við sig 5ryþma dansarann og gjörningalistakonuna Önnu Sigríði Ólafsdóttur og eru þau komin í startholurnar og segjast hvergi banginn yfir að takast á við þetta krefjandi verkefni. Hvað verður svo matreitt úr efniviðnum á eftir að koma í ljós, en æfingar á verkinu eru við það að hefjast undir leikstjórn leikarans Víkings Kristjánssonar, sem síðast leikstýrði Gretti góðu heilli og gengi er enn er í sýningu.
Daðrað við Sjeikspír verður frumsýnt þann 23. apríl í Félagsheimili Bolungarvíkur og í framhaldinu verða sýningar víðar um Vestfirði.
19.10.2021 / 11:32
Leiksýningar til sölu
Vantar þig leiksýningu fyrir hátíðina, hópinn, fyrirtækið eða mannamótið. Við höfum úrval leiksýninga í boði fyrir þig og sýnum um land allt. Nánari upplýsingar í síma: 891 7025 eða á komedia@komedia.is Kómedíuleikhúsið - leikhúsið í vestri Bakkabræður - Dimmalimm -... Meira10.09.2021 / 11:06