fimmtudagurinn 28. janúar 2016

Erum ekki hætt erum bara að vinna

Loksins kemur Sjeikspír vestur
Loksins kemur Sjeikspír vestur

Þó hljótt hafi farið um Kómedíuleikhúsið frá því á Þrettándanum sem leikhúsið hafði umsjón með á Ísafirði í ár. Þá erum við ekkert að hangsa og drekka bara svart kaffi. Við erum nefnilega að vinna, að skapa og þá er vissulega gott að hafa kaffi með. Við erum ekki bara að vinna að einni nýrri sýningu heldur tveimur. Já, tvær kómískar sýningar eru væntanlegar á árinu. Fyrst skal nefna nýtt íslenskt leikverk um ævi einbúans Gísla á Uppsölum. Það er óhætt að segja að saga Gísla hafi vakið fádæma athygli þegar hún komst í kastljós fjölmiðla. Allar götur síðan hefur Gísli verið þjóðinni hugleikinn. Að vanda koma aðeins Vestfirðingar við sögu uppfærslunnar á Gísla á Uppsölum. Sveitungar söguhetjunnar Arnfirðingarnir Elfar Logi Hannesson og Þröstur Leó Gunnarsson eru höfundar auk þess mun Elfar Logi leika Gísla en Þröstur Leó leikstýra. Höfundur tónlistar og hljóðmyndar er vestfirska söngvaskáldið Svavar Knútur Kristinsson. Síðast en ekki síst mun dýrfirska listakonan Marsibil  G. Kristjánsdóttir sjá um leikmynd og búninga. Leikritið um Gísla á Uppsölum verður frumsýnt á sögslóðum í Selárdal um miðjan júlí komandi. Eftir það verður farið í leikerð um landið. 

Hin kómíska sýningin sem nú er verið að vinna að í herbúðum Kómedíuleikhússin er leikrit tileinkað ævi og verkum mesta leikskálds allra tíma, William Shakespeare. Verkið sem hefur einfaldalega vinnuheitið, Sjeikspír, er samstarfsverkefni þeirra Elfars Loga Hannessonar og Önnu Sigríðar Ólafsdóttur. Sem vinna nú að handriti leiksins og munu einnig standa á sviðinu. Víkingur Kristjánsson leikstýrir og Marsibil G. Kristjánsdóttir sér um leikmynd og búninga að vanda. Segja má að árið í ár sé ár skáldsins því 400 ár eru nú liðin frá andláti hans. 

Leikverkið um Sjeikspír erður frumsýnt laugardaginn 9. apríl í Félagsheimilinu Bolungarvík. 

Lífið er sannarlega kómedía alla daga ársins.