föstudagurinn 27. nóvember 2015

Búkolla í Bolungarvík

Hin ævintýralega sýning Búkolla verður sýnd í Bolungarvík á sunnudag. Sýnt verður í hinu dásamlega Félagsheimili staðarins sem sumir vilja kalla Hörpu Vestfjarða. Sýningin á sunnudag hefst kl.13.00 og opnar húsið hálftíma fyrr. Miðaverð er aðeins 2.200.- kr og já, við erum með posa. 

Hin ævintýralega sýning Búkolla hefur notið mikilla vinsælda og hefur verið leikin um land allt. Hér er líka á ferðinni ekta ævintýri fyrir börn á öllum aldri alveg frá 2ja til 102ja og allt þar á millum og kring. Auk ævintýrsins um hana kúnna Búkollu kemur ævintýrið Dimmalimm einnig við sögu sem og hin frábæra saga Sálin hans Jóns míns. Allar þessar einstöku sögur eiga það sameiginlegt að bílddælski listamaðurinn Guðmundur Thorsteinsson eða Muggur gæddi þær allar lífi í sínum mögnuðu teikningum og verkum. Hann er einnig höfundur ævintýrsins um hana Dimmalimm. 

Sýningin á Búkollu á sunnudag kl.13 í Bolungarvík er 44 sýningin á leiknum. Svo það er ekkert úti er ævintýri hér því ævintýrið virðist bara vera endalaust.